Ég heiti Arnar Pétursson og áður en ég byrjaði í hlaupum var ég í fimleikum til 7 ára aldurs, í fótbolta frá 5-17 ára og í körfubolta frá 9-21 árs. Í fótbolta og körfubolta getur verið mikið um hlaup en það er sjaldgjæft að þjálfarar gefi því sérstakan gaum eða leggi áherslu á að hlaupið sé með réttum hlaupastíl. Íþróttafólki er einfaldlega komið í form með því að taka allskonar æfingar sem gera þau þreytt og eru oft gríðarlega andlega erfiðar. Þetta er mjög skiljanlegt þar sem sérfræðiþekking þjálfara er á viðkomandi íþróttagrein en ekki úthaldsþjálfun. Í mínu tilviki var lítið farið í fræðin á bakvið úthaldsþjálfun í fótbolta og körfubolta þrátt fyrir að úthald spili stóran þátt í þessum vinsælustu íþróttagreinum í heimi. Þarna er hægt að gera mun betur og möguleikarnir til að bæta úthaldsþjálfun eru miklir.
Með því að æfa alltaf tvær íþróttir sem barn og vera mjög virkur í íþróttum á skólatíma þróaði ég með mér gott úthald. Ég byrjaði því að vinna í úthaldsgrunninum mjög snemma en það er forsenda fyrir árangri í hlaupum eins og ég mun koma oft inn á. Það var mjög snemma byrjað að benda mér á hlaupahæfileikana en sem boltaíþróttamaður átti ég erfitt með að sjá fyrir mér að skipta alfarið yfir í hlaupin með engan bolta til að elta. Einnig var enginn hópur af ungum krökkum sem æfði eingöngu langhlaup á þessum tíma. Svo var hugmyndin um hlaup ekki sú jákvæðasta þar sem hlaup voru oftast notuð sem refsingar. Ef við stóðum okkur illa á æfingum þá var refsingin oft í formi hlaupa og þegar við áttum að taka hlaupaæfingar þá var það venjulega í formi einhverskonar prófs þar sem við hlupum þangað til við urðum örmagna. Þetta eru próf eins og píptest og Cooper test. Slík próf reyna mikið á og eru margir með kvíðahnút í maganum í aðdraganda slíkra prófa. Af þessum ástæðum sá ég hlaup fyrir mér sem eitthvað sem væri gríðarlega erfitt, ekki bara á sumum æfingum, heldur á öllum æfingum. Ég sá fyrir mér að við myndum hlaupa af mikilli ákefð á hverri einustu æfingu og allar æfingar myndu enda á því að maður lægi í jörðinni nær dauða en lífi.
Sem betur fer er þetta eins fjarri raunveruleikanum og hægt er að ímynda sér, en ásamt því að það hafa engan hóp til að æfa með átti þetta sinn þátt í því af hverju ég byrjaði ekki að æfa hlaup sem krakki. Þótt það sé ennþá ekki til hópur fyrir unga krakka sem vilja eingöngu æfa hlaup þá vona ég að með tíð og tíma getum við saman breytt viðhorfinu til langhlaupa.
Ákvörðunin að byrja að æfa hlaup er án efa sú besta sem ég hef tekið um ævina og að rifja upp að hlaup hafi verið refsing þegar maður var yngri er skondin tilhugsun í dag því fátt er jafn gefandi og að fara í góðan rólegan hlaupatúr. Eftir að hafa verið einn mesti efasemdarmaður um hlaup hef ég fundið að hlaup geta haft allt það sem íþrótt á að hafa. Góðan félagsskap, lítið umstang, einfalt að iðka og svo gefa hlaupin okkur tækifæri á að vaxa sem íþróttamenn og sem manneskjur því andlegi þátturinn í hlaupum er gríðarlega mikilvægur.
Þrátt fyrir að hlaup séu ein einfaldasta íþrótt sem til er þá eru óteljandi þættir sem skipta máli þegar við ætlum að hámarka líkur á árangri á meðan við lágmörkum líkur á meiðslum. Hlaup taka ekki bara á öllum þáttum líkamans heldur spilar andlegi þátturinn jafnvel stærra hlutverk en í flestum öðrum íþróttum. Það er því heildræn nálgun sem við þurfum að hafa að leiðarljósi þegar við ætlum að ná árangri í hlaupum. Til að ná árangri þarf að vera gaman og það skiptir miklu máli í allri minni nálgun er hvernig við hámörkum líkurnar á að vera ánægð með okkur og hvernig við lágmörkum líkurnar á stressi og vonbrigðum. Ef við beitum þessum nálgunum þá munum við hafa meiðslin og vonbrigðin í lágmarki og árangur og gleði í hámarki. Þetta ýtir svo undir að hlaupin geti fylgt okkur alla ævi og gefi okkur meira en bara góðu tilfinninguna þegar við bætum tímana okkar. Það mun koma að því að við getum ekki lengur bætt okkar bestu tíma en þá geta hlaupin hjálpað okkur að verða betri manneskjur út alla ævina.
Comments