top of page
Writer's pictureArnar Pétursson

Orðforði hlauparans: Gæði

Hvað eru gæði í augum hlauparans?


Gæðaæfingar eru þær æfingar þar sem hlaupið er á hraða sem er meiri en í rólegum og millirólegum hlaupum. Einnig er hægt að hugsa um gæðaæfingar sem æfingar sem við getum ekki tekið marga daga í röð án þess að upplifa mjög mikla þreytu. Gæði vísa þá til samspils á milli ákefðar og lengdar á æfingunni. Því meiri ákefð, því meiri gæði. Hins vegar getur róleg æfing líka orðið gæðaæfing ef fólk er að æfa fyrir til dæmis 100 km hlaup og fer í 40 km rólegan langan túr. Sú æfing myndi klárlega flokkast sem gæðaæfing enda ekki auðveld æfing.

Því erfiðari sem æfingin var því meiri voru gæðin.

Ef við lítum á gæði sem ákveðið sambland af lengd æfingarinnar og ákefðinni sem er á æfingunni sjáum við að það eru mjög mikil gæði í æfingu þar sem við tökum 4 x 200 m eins hratt og við mögulega getum en mjög lítil gæði ef við tökum 4 x 200 m á maraþonkeppnishraða.


Reglan er að því meiri sem gæðin eru á einni æfingu, því lengri tíma þurfum við í endurheimt þangað til við tökum næstu gæðaæfingu.

Gæði á gæðaæfingum

Ef við heyrum hlaupara tala um að í dag sé gæðaæfing þá vitum við að þetta er ein af mikilvægustu æfingum vikunnar og það skiptir miklu máli að hún gangi vel. Þá er mjög sniðugt að spyrja hlaupara reglulega hvort það séu gæði á dagskrá í dag.


Ég elska orð sem hafa margþætta þýðingu, eins og stílsprettir sem eru ekki bara sprettir heldur sprettir þar sem við hugsum um hlaupastílinn. Gæðaæfingar eru að sama skapi ekki bara góðar æfingar heldur æfingar þar sem við viljum passa upp á gæðin. Gæðin í hlaupastílnum og oftast gæðin í aðstæðum og undirbúningi. Á þessum æfingum viljum við helst vera mjög meðvituð um hlaupastílinn og passa að beita okkur rétt, þannig virka gæðaæfingar best.


Réttar gæðaæfingar gera okkur kleift að taka áframhaldandi bætingum í hlaupum en ekki láta gæðin bera rólegu æfingarnar ofurliði.

Comments


bottom of page