top of page
Writer's pictureArnar Pétursson

Munurinn á eymslum og meiðslum

Updated: Feb 25, 2022


Grundvallarmunurinn á meiðslum og eymslum er að við getum æft með eymslum en það getur verið hættulegt að æfa með meiðslum. Kona sem er fótbrotin og reynir að hlaupa mun gera illt verra og getur valdið sér óafturkræfum skaða. Hlaupari sem er með marblett á fætinum sem veldur litlum sem engum verkjum þegar hún hleypur er líklega að gera mikinn skaða með því að taka æfingu. Það sem hún þyrfti að gera er að skrá eftir hlaupið hvernig henni leið og hvernig verkurinn lýsti sér. Ef verkurinn er viðvarandi í nokkra daga í viðbót, þá ætti hún að skoða hvort það liggi eitthvað meira að baki og panta þá tíma hjá sjúkraþjálfara.


Annar munur á milli eymsla og meiðsla er að eymslin verða ekki verri eftir æfinguna og við eigum ekki að finna mikið fyrir þeim yfir daginn. Ef við tökum æfingu og finnum verk á æfingunni sem heldur áfram allt hlaupið, verður svo verri eftir á og enn verri daginn eftir, eru þetta líklega meiðsli en ekki eymsli. Ef við erum hins vegar ekki með verk yfir daginn en fáum svo smá verk á æfingunni sem minnkar eftir því sem líður á æfinguna og hættir eða minnkar eftir hana, svo við finnum ekki fyrir honum daginn eftir, þá er í lagi að halda áfram æfingum eins og vanalega. Það er samt mikilvægt að við skráum þetta niður og séum meðvituð um hvernig verkurinn lýsir sér og við hvaða álag hann kemur fram.


Líkamsmeðvitund

Þegar við skráum í hlaupadagbókina hvernig eymslin sem við fundum fyrir á æfingum lýsa sér og hvar þau eru að plaga okkur, gefur það okkur tækifæri til að vinna í þeim og þjálfar um leið líkamsmeðvitundina okkar. Ef við erum t.d. stíf í kálfanum nokkra daga í röð, þá getur verið sniðugt að nudda kálfann með nuddrúllu, teygja aukalega, forðast hart undirlag til að hlífa honum við höggunum, hjóla eða hlaupa í vatni. Þetta forðar okkur frá því að láta eymslin verða að meiðslum og þá getum við æft betur en sá sem greinir verkinn ekki nógu snemma og heldur áfram að æfa undir álagi sem mun að endingu leiða til meiðsla.


Stöðugleiki í æfingum skiptir öllu máli til að ná árangri í hverju sem er og ef við erum reglulega að missa út mánuð hér og mánuð þar út af meiðslum, þá erum við að aftra okkur að óþörfu.


"Það er betra að æfa við 80% ákefð 100% af tímabilinu, heldur en að æfa við 100% ákefð og vera bara heil 80% af tímanum."


Þetta er hugsunarháttur sem einn besti hlaupari allra tíma, Bernard Lagat, hefur æft eftir en hann á næstbesta tíma sögunnar í 1.500 m og varð í 5 .sæti á Ólympíuleikunum árið 2016 í 5000 m, þá 42 ára gamall. Hann tekur einnig hvíldartímabilinu mjög alvarlega og sleppir því að hlaupa í nokkrar vikur á hverju ári.


Eymsli eru í lagi en lykillinn er að láta eymsli ekki verða að meiðslum og þetta getur verið erfið lína til að dansa á. Hlaupadagbók, rétt uppsetning á æfingum og bætt líkamsmeðvitund skiptir þarna sköpum og þá geta allir dansað.

Comments


bottom of page