top of page
Writer's pictureArnar Pétursson

Laugavegurinn 2023 - seinni hluti

Updated: Jul 27, 2023

Þegar maður skrifar um stærsta hlaupið á árinu þá held ég að það megi alveg draga það í tvo pistla, líka svona aðeins til að halda spennunni.

Í stuttu máli fór hlaupið einhvernveginn svona.

Mæli eindregið með því að horfa á myndbandið til enda en þetta augnablik var það sem dróg mig áfram í gegnum allt hlaupið.


Hrafntinnusker

Ég hljóp hlaupið á Nike Vaporfly alveg eins og hafði gert árið áður, í bæði skiptin komu þeir vel tættir í mark en fæturnir á mér voru í toppmálum, engar blöðrur og fílingurinn að hlaupa allan tímann góður, líka ekkert fall svo ég get ekki kvartað. Ég fór af stað í jakka með belti en ekki vesti eins og í fyrra. Í beltinu var ég með sex gel og einn tóman brúsa með koffín dufti. Í hendinni hélt ég á brúsa með kolvetnadrykk og var svo með þrjár NOW efferhydrate töflur sem ég myndi setja í brúsann í hvert skipti sem ég fyllti á vatnið.


Ég skipti hlaupinu upp í þrjá hluta. Fyrst þarf að koma sér upp í Hrafntinnusker og þar er bæði hægt að vinna mikinn tíma ef maður hefur æft brekkurnar nægilega vel en líka hægt að gera þau mistök að fara of hratt af stað. Eftir Hrafntinnusker snýst þetta um að koma sér í Álftavatn án þess að steikja alveg í sér lærin niður Jökultungurnar og helst ekki detta á andlitið niður brekkurnar. Frá Álftavatni og í Þórsmörk snýst þetta mikið um að geta hlaupið sem mest þar sem núna er mjög mikið af hlaupalegu undirlagi og bara minniháttar hækkanir og lækkanir eftir.


Árið 2022 var ég ekki nægilega vel undirbúinn í brekkurnar og missti því Bretann Andrew Douglas nokkuð langt á undan mér. Í ár fór ég á svipaðri ákefð og jafnvel örlítið varkárari en í fyrra en var samt um þremur mínútum hraðari fyrstu 11 kílómetrana. Það var mjög jákvætt en strax eftir um 2 km þá þurfti ég að snúa við og bíða eftir hlaupurum til að vera viss um að ég væri að fara rétta leið. Ég lenti því miður í því að vera óviss með leiðina þrisvar sinnum í viðbót sem hægir auðvitað á manni en líklega eitthvað sem allir lenda að einhverju leyti í.


Góður tími upp að Hrafntinnuskeri var ekki síst fyrir þær sakir að aðstæður voru svo til fullkomnar, lítill snjór og meðvindur. Keppnismaðurinn í mér fannst það hinsvegar örlítið svekkjandi að finna að ég var orðinn einn fremstur með engan til að pressa á mig og engan til að elta. Tíminn var hinsvegar mjög góður og þá var bara að halda áfram á sömu braut.

Mér tekst að komast áfallaust niður Jökultungurnar en ég var mjög varkár niður allar brekkur það sem eftir lifði hlaups þar sem ég vildi ekki eiga á hættu að missa forskot eða klúðra hlaupinu með því að detta og meiða mig. Hinsvegar rétt áður en ég kem að Álftavatni byrja ég að finna fyrir óþægindum í kringum kviðsvæðið.


Álftavatn

Ég hef nokkrum sinnum lent í því að fá einhverskonar magakrampa í hlaupum, ástæðurnar geta verið ýmsar, mikill hiti, stress, of mikil næring á of skömmum tíma og miklar hæðarbreytingar. Núna síðast lenti ég í því á HM í utanvegahlaupum að þurfa að hætta vegna verkja. Þar sem ég nálgast Álftavatn þá byrja ég að finna fyrir þessari tilfinningu og óttaðist það versta. Það eina í stöðuna var samt bara að halda áfram, passa að auka ákefðina ekki of mikið og halda áfram að næra sig hægt og bítandi.


Á þessum tímapunkti var ég mjög meðvitaður um öll kílómetrasplitt í hlaupinu. Ég reyndi að hlaupa á mörkum þess að allt myndi herpast saman og vildi sjá hvaða hraða ég gæti haldið. Sem betur fer var ég að klukka hraða kílómetra og sá að millitíminn var ennþá töluvert betri en árið áður. Verkirnir urðu ekkert verri svo ég passaði mig bara að halda mig á þessari ákefð, leggja áherslu á að taka litla sopa af gelunum og fylgjast vel með hvernig kílómetrarnir væru að tikka inn. Núna var ekki tíminn til að taka neinar áhættur heldur bara koma sér í Þórsmörk.


Þórsmörk

Það er alltaf svakalega ljúft að byrja að sjá skilti á leiðinni sem segja Þórsmörk. Maður er með svo mikið af fallegum og góðum minningum frá þessu svæði að það er ekki annað hægt en að fá smá auka orku. Frá Álftavatni og í Þórsmörk eru mjög hlaupalegir kaflar þar sem mér líður mjög vel. Það sem var hinsvegar frábrugðið frá árinu áður var hversu þurr sandurinn var í brautinni. Í fyrra upplifði ég þetta eins og að hlaupa í Heiðmörk en núna minnti þetta frekar á strandarhlaup. Það kom ekki að sök en einn lítill punktur sem maður tekur með sér í næsta hlaup.


Misreikningur

Í fyrra hafði ég verið í kringum 2:07 þegar ég kom yfir Bláfjallakvíslina og eftir að hafa verið byrjaður að finna fyrir verkjum í kringum kviðinn þegar ég nálgaðist Álftavatn var ég spenntur og smá stressaður að sjá hvort það væri að hægjast mikið á mér vegna þess að ég var að passa upp á að verkirnir í kviðnum yrðu ekki meiri. Ég lít svo á klukkuna þegar ég kem að tímatökunni og sé þá 2:06. Þetta var alls ekki gott þar sem ég hafði fram að því verið rúmum 3 mínútum hraðari en árið áður eftir 11 km, það var semsagt að hægjast all verulega á mér. Ég hélt samt bara mínu striki þar sem ég sá engan nálægt mér fyrir aftan mig og vissi að ég gæti alltaf keyrt vel á það ef ég þyrfti. Þarna gerði ég hinsvegar önnur mistök. Ég leit vitlaust á klukkuna... Í rauninni var ég á rúmlega 2:04 sem þýddi að ég var að halda góðum hraða og það var ekki að hægjast á mér. Þetta ætti kannski ekki að skipta miklu máli en andlega hefur þetta gríðarleg áhrif. Þú færð ekki jákvæð skilaboð heldur frekar neikvæð, og þegar þú ert ekki með neinn á undan þér þá verður róðurinn ennþá harðari.


Eftir að hafa haldið mínu striki næsta klukkutímann og að finna verkinn í kviðnum vera að hjaðna var komið að síðustu kílómetrunum. Orkuinntaka hafði gengið vel þannig fílingurinn var góður. Þarna lendi ég þá í því að finna fyrir byrjunarstigi á krampa í kringum nárasvæðin báðum megin. Ég hef aldrei fengið krampa í hlaupi og aldrei fengið krampa í nárann svo þetta kom mér aðeins á óvart. Í staðinn fyrir þá að keyra á þetta þurfti ég því áfram að vera skynsamur, halda aftur af mér og einfaldlega passa upp á að ég myndi komast í Þórsmörk. Tíminn þyrfti svo bara að koma í ljós.

Lokaspölurinn í Laugaveginum er alls ekki auðveldur. Kápan er eftir og svo alls konar litlar hækkanir sem taka á andlega. Það er ekki nema rétt síðasti kílómetrinn sem er laus við allar brekkur. Í fyrra hafði ég fengið 52.9 km á Garmin úrið og var að reikna með að fá svipað núna í ár. Ég sá því að ef ég myndi bara halda mér á svipuðu róli þá ætti ég að eiga möguleika á að slá brautarmetið. Ég byrja því að negla á endasprettinn þegar það eru 52 km komnir. Ég fæ svo sub 4 tíma á úrið en ekkert endamark komið. Brautin var nefnilega aðeins lengri í ár þar sem snjórinn var minni og við þurftum því að fara dýpra í gilin í brautinni.


Ég viðurkenni það að auka markmiðið var að fara undir fjóra tíma og helst slá brautarmetið en ég var svekktur í sirka tvær mínútur eða bara alveg þangað til ég var kominn í mark, því ekkert er ljúfara en að stökkva yfir þetta endamark og fagna með fjölskyldunni.


Framhaldið

Mér fannst virkilega skemmtilegt að fókusa á Laugaveginn þetta tímabilið og algjör snilld þegar maður uppsker eftir erfiðisvinnuna. Ég var samt ólíklega að fara alveg að færa mig yfir í utanvegahlaupin þar sem mér finnst eins og ég eigi ennþá mikið inni í götuhlaupunum og þá sérstaklega í maraþoni. Það var ekki nema ef HM í utanvegahlaupum hefði verið það skemmtilegt og sætið hefði verið það gott að ég gæti ekki annað en fært mig alfarið yfir. Eins og staðan er núna mun ég örugglega hvíla aðeins Laugaveginn en halda áfram að mæta í önnur utanvegahlaup án þess að æfingarnar séu þó miðaðar að utanvegahlaupum.


Þegar ég byrjaði í hlaupum var Ólympíulágmarkið 2:19 og af einhverjum ástæðum fannst mér raunhæft að ég ætti að geta náð því. Ég vil helst sanna það fyrir sjálfum mér að þessi hugsun átti rétt á sér. Annars er bara gott að eiga sub 4 í Laugaveginum eftir, þýðir að maður verði að koma allavega einu sinni enn.

Laugavegsskórnir eru ekki alveg komnir á hilluna


Comments


bottom of page